M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

16.09.2014 19:32

Meira af klettinum




Þá er það formaður Drullusokka hann Darri á Honda CBX 1000 hjóli sínu af árg 1980



Hjólið lítur út eins og nýtt eftir að Darri gerði það upp á nokkrum árum og mikið var verslað í gripinn.


16.09.2014 07:36

Freddie og Goldwinginn hans Tryggva

Hver man ekki eftir Freddie Mercury í myndbandinu við lagið Crazy little thing called love.

Þar er sviðsmyndinn þessi flotti 1978 Goldwing, þetta gæti þess vegna verið svampurinn hans Tryggva, hver veit ?

15.09.2014 21:58

Í dalnum á laugardaginn


Í blíðuni hér á laugardaginn fórum við Drullusokkar í hópkeyrslu um bæinn okkar og stoppuðum m a í Herjólfsdal. Nokkrir okkar klöngruðust upp á klettinn sem Þjóhátíðin er sett á. við mynduðum og hér er sá fyrsti sem bröllti þarna upp. auðvitað Jenni rauði á henni Maríu sinni sem er Honda CB 550 árg 1976.



Flottur Jenninn á Mæju sinni.





Og ein svona í anda Sigurjóns Sigurðssonar á Freyjuni, en hann lék þetta á sama kletti með 750 Hondu sína árið 1972.

14.09.2014 21:47

Meira af fundinum.

Smá viðbótarfærsla um helgina okkar.


Gauji Gísla, Viðar Breiðfjörð og Addi Steini CBX.

Tankurinn hjá Magna custom-málaður eftir Ýrr.

Bárður, Stebbi, Tryggvi upphengdur af Bigga Jóns, næstur í röðinni er Stebbi bróðir Bigga, mikill hjólamaður í áratugi og Maggi.

Kási og Óli Biggi.

Addi og CBXXX-INNN.

Tryggvi á svo fleiri myndir sem eiga eftir að koma inn.

Við í stjórninni þökkum öllum félagsmönnum fyrir að vera Drullusokkar, því án félagsmanna er að sjálfsögðu ekki til klúbbur. Við erum þokkalega sátt við hvernig til tókst í sumar en alltaf má gera betur. Hjólahelgin um sjómannahelgina kom vel út þó að veðrið hafi ekki verið uppá 10. Næsta hjólahelgi verður bara enn flottari, þá verðum við búin að slípa til nokkur atriði og fáum jafnvel fleiri félagsmenn til að taka þátt í fjörinu.

Svo setjum við einhverjar ferðir á þegar að vorið nálgast, og svo þarf að plana norðureyjahitting og gaman væri að fá hugmyndir frá ykkur.

Það kom líka fram á fundinum að ef þið hafið áhuga á að versla barmmerki, merkt föt eða láta merkja föt sem þið eigið, þá er hægt að tala við Hilmar hjá 66°N [email protected] eða í síma 5356600 og beðið um merkingardeild.
Hann er með logoið klárt í tækjunum sínum og merkin eru vönduð og flott.

14.09.2014 01:57

Aðalfundur Drullusokka 2014




Bárður, Stebbi, Símon, Tryggvi, Biggi, Stebbi, Maggi, Daddi og Dr. Bjössi, topp menn og hver öðrum flottari.

Fundurinn fór fram í gær laugardaginn 13.09.14 (eins og var auglýst hér á síðunni 01.09.14) Við hittumst kl. 14:00 í Friðarhöfninni þar sem hið ótrúlega gerðist, núverandi formaður toppaði fyrrverandi formann í stundvísi og þótti mönnum það virkilega merkilegt. En við fórum af stað í hópakstur um kl. 14:30 í frábæru veðri 14 gráðu hita og logni. Í hópkeyrslunni voru 32 hjól með svipað mörgum ökumönnum/konum.


Pittstopp í dalnum.


Við hittumst kl. 16:00 í Gullborgarhúsinu og þar var aðalfundurinn settur, þar voru hin ýmsu mál rædd og allt fór vel fram.

Hugmynd kom um að fara plana e-ð stórt á áratugsafmæli klúbbsins 2016, t.d. utanlandsferð á hjólunum, hugmynd sem vert er að skoða.

Það var samþykkt að ársgjaldið yrði óbreytt

Númer látinna félaga verða ekki gefin út aftur.

Hugmynd kom upp með að gefa reiðhjólabjöllur á hjóladegi Eykindils, Eimskip og Kiwanis næsta vor,  sú tillaga var samþykkt.

Menn vilja sjá dagatal 2015, stjórnin ætlar að vinna í því máli.

Tillaga kom um að hafa einn hitting á Reykjarvíkursvæðinu næstkomandi sumar, fólki fannst það fínasta hugmynd, þegar að nær dregur þurfum við að fá Drullusokk á Reykjarvíkursvæðinu til að halda utan um slíkan hitting.

Fjórir nýjir félagar voru teknir inn í klúbbinn ; Jackie hans Einars, Ísak Þór Davíðsson #205, Gunnar Þór Guðbjörnsson #160 og Friðrik Ágúst Hjörleifsson #110. Við bjóðum þau velkomin í klúbbinn.

Umræða er um að reyna að halda landsmót bifhjólafólks í Eyjum á næsta ári, það féll í kramið hjá fundargestum, en þetta er hugmynd á byrjunarstigi og er ekkert víst að hún verði að veruleika.

Pælingar eru að færa aðalfundinn á sjómannahelgina (hjólahelgina okkar hér í Eyjum) Það er e-ð sem stjórnin ætlar að funda um og skoða.

Stjórnin verður óbreytt, þ.e.a.s. Darri er formaður, Bryndís varaformaður, Siggi Óli gjaldkeri, Svo er Tryggvi, Jenni og Sæþór ásamt Hermanni (ef hann hefur enn áhuga) einnig í stjórn.

Þetta er svona í grófum dráttum það sem fór fram á fundinum.

Addi að máta 1100 Honduna hans Þorgeirs, meðan að Þorgeir fylgist með.

Næst var fírað upp í grillinu og 9 stk. lambalæri grilluð og étin, svo var spjallað og bullað fram á kvöldið. Takk fyrir góðan dag félagar og takk kærlega fyrir komuna, kannski sérstaklega þeir sem létu sjá sig af fasta landinu.

Darri formaður, Hulda, Bárður og Magni Hauks.


Tryggvi í göngu með hjálminn meðan að það rýkur úr Ómari á kantinum.


Tryggvi, Gauji Engilberts og Jenni,,, og félagarnir Kási og Heimaklettur í bakrunn.

14.09.2014 01:51

Videó frá Gauja

Þá er aðalfundurinn okkar afstaðinn og dagurinn fór virkilega vel fram.
Gauji Engilberts tók saman stutt og skemmtilegt myndskeið í dag.
 

MC Drullusokkar samkoma from GE Verk sf on Vimeo.

13.09.2014 00:34

Tíu mest spennandi hjólin 2014 !!!


Tíu mest spennandi mótorhjólin í byrjun ársins 2014 hvað myndi þig langa í af þessum græjum ??

Þessi skrif eru ekki miðuð við neina sérstaka röð þ.e.a.s. fyrsta hjólið sem fjallað er um er hugsanlega alls ekki það besta og það síðasta sem fjallað er um ekki það versta. Þarna er aðeins verið að skrifa um hvað blaðamönnum sem skrifa um mótorhjól langar mest til að prufa á þessu ári.

BMW R nine T, þarna hafa hönnuðir heldur betur tekið tillit núverandi tískustrauma með því að hanna alvöru Cafe Racer. Þarna er nakið hjól sem BMW ákvað að smíða í tilefni að 90 ára afmæli verksmiðjunnar. Vélin sem er hefðbundin boxervél er 1170cc loft og olíukæld. Þetta hjól er frábærlega vel heppnað og hefur selst upp nær allsstaðar.


Ducati Monster 1200, við könnumst flest við Monster hjólið, því það er búið að vera á markaðinum í tuttugu ár og nýtur mikilla vinsæla. Núverandi græja er með hefðbundna dúkka vél sem er 1198cc og er vatnskæld er sögð 135 hestar standard en 145 hestar í S hjólinu. Það er sami mótorinn og í Diavel, hjólið fær allsstaðar góða dóma hjá blaðamönnum mótorhjólablaða.


Harley Davidson Street 750 og 500, þarna kemur Harley sjálfur með alveg nýtt hjól frá grunni, en þeir hafa ekki gert það í um þrettán ár. Þessi hjól eru miðuð við yngri kaupendur og sögð hluti af framtíð Harley. Þetta eru vatnskæld hjól og mótor er 60gráðu með yfirliggjandi knastásum og fjórum ventlum per. strokk. Nokkuð vel heppnað hjól að sjá miðað við myndir og fær ágæta dóma frá blaðamönnum.


MV Agusta Turismo Veloce 800, þarna er komið frá Ítalanum sport touring hjól og segja þeir sjálfir að  þetta sé alls ekki eftirherma GS BMW hjólsins, þarna sé á ferðinni alveg nýtt hjól, ný grind hönnuð frá grunni, en vélin er eldri hönnun, þriggja strokka og er 789cc, við hana er tengdur tölvubúnaður sem gefur möguleika á átta stillingum um átak  í afturhjól og ýmislegt annað. Vel heppnaður Ítali.


BMW R1200RT þessi Bimmi er nær allur ný hönnun frá BMW, grind er öflugri, áseta, sæti, staðsetning pedala, sætishæð o.fl. Rafstillanleg framrúða og betri vindvörn fyrir ökumann. Mótor er vatns og loftkældur er 1170cc boxermótor og það eru allskonar rafstillingar til að skila afli í afturhjól t.d. brekkuhaldari svo þú rennir ekki afturábak, eða þurfi að láta kúplingu snuða mikið.


KTM RC390 Þegar þetta er skrifað er ekki vitað hvort þetta hjól verði flutt til USA en þeim langar sko í það þarna í guðs eigin landi !! Og alveg skiljanlega því þarna er á ferðinni sérstök græja, mótor er með einum strokk sagður 43 hestar, hjólið vigtar um 150-160 kg og miðað við útlit ætti þetta að draumgræja í beygjum, öflugar bremsur og vigtar nær ekkert, hvað þurfa menn meira.


Honda Valkyrie, ég var farin að heyra spurningar um: Hvað engin Honda í þessari upptalningu, jú og það er er sko sex strokka boxer græja sem margir þekkja. Svona nokkurn veginn nakinn Gullvængur. Mótor er 1832cc vatnskældur, grind er alveg ný úr áli og vigtar hjólið um 80 kg minna en vængurinn. Afturgaffal er svona með "dúkkalúkki" þ.e. bara öðru megin, sætishæð er sögð 28.8 tommur. Það er nútíma útlit á græjunni og allskonar rafmagnsdótarí til að stilla nær allt.


Ducati Superleggera,  hér er alvöru hjól sem gæti hentað þessum tveimur "dúkka" aðdáendum á Íslandi, en öllu bulli slepptu þá eru þeir örugglega miklu fleiri. Þetta heiti á "dúkkanum" þíðir í raun ofurlétt og án bensín og olíu vigtar það aðeins 342 lbs. Vélin er 1198cc og er sögð yfir 200 hestar, þannig að engum ætti að leiðast. Mikið af titanium er notað við smíði hjólsins, jafnvel í pústið. Þetta er í raun sérsmíðað hjól og verðið ættu flestir að ráða við eða um kr. 7.500.000 og þá á eftir að borga tolla og flutning og svona smávegis annað.


Motus MST & MST-R, Hér er á ferðinni svona sport touring hjól framleitt af verksmiðju sem nær engin hefur heyrt um, er framleitt í USA. Vélin er V fjórir en liggur þvert í svona ítölskum Gússi stæl. Togið er hressilegt um 120 pund-fet við 5800 rpm. Vélin snýst um 3000 rpm á 70 mílum. Með Brembo bremsum, Ohlins fjöðrun og OZ felgum, það segir okkur að þarna er ekki verið að spara og það besta notað. Hestöfl er sögð 160 fyrir venjulega hjólið og 180 fyrir R hjólið. Nokkuð spennandi græja þarna á ferð.


Honda CBR1000RR- SP, já sko það eru tvær Hondur í þessari upptalningu og jú reyndar tveir Bimmar, svipuð gæði er það ekki. RR 1000 Hondan hefur ekki verið um tíma hraðskreiðasta lítra hjólið (1000cc), en alltaf verið mjög vinsælt. En SP hjólið kemur með ýmsu góðgæti t.d.  Öhlins fjöðrun, Brembo bremsum, mótor er "blue" printaður og í raun allt sérvalið í hann. Nýtt hedd og púst og verðið því nokkru hærra en standard RR hjól. Eru þetta merki um nýja tíma með þetta skemmtilega hjól eða þarf Sæþór að fara leita sér að annarri tegund en Honda.


Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni


11.09.2014 22:49

Aðalfundurinn



Laugardagurinn 13.09.14.

Spáin lofar góðu, þannig að það er gott útlit fyrir rúnt.
  • Kl.14:00. Við hittumst í Friðarhöfninni og keyrum nokkra hringi saman.
  • Kl.16:00. Mæting í Gullborgarhúsið þar sem fundurinn fer fram. Kosið verður í stjórn, ársreikningurinn sýndur, farið yfir Drullusokkaárið sem er að líða og farið yfir hugmyndir næsta Drullusokkaárs. Ef þið hafið áhuga á stjórnarsetu eða hafið hugmyndir sem vert er að viðra þá er þetta staður og stund til að tjá sig.
  • Kl.20:00. Þá verður étið, nokkur rollulæri verða grilluð með einhverju sniðugu meðlæti (þá getur Gúri greyjið hlíft okkur við hebreskunni og komið yfir), einnig verður boðið uppá nokkrar tegundir af vökva, svo tekur við bull & rugl að hætti Drullusokka e-ð fram á kvöldið.

Þá er bara að koma sér í gírinn fyrir laugardaginn, hittumst hress.

09.09.2014 07:27

Smá samantekt .


Honda CB1300S alvöru hálfnakið mótorhjól

Sölutölur sýna að nakin, þ.e.a.s. mótorhjól með lítið af hlífum njóta sífellt meiri vinsælda og það er skiljanlegt því flest okkar vilja sjá allt sem við höfum keypt og ætlum að nota er það ekki ?. Í dag ætlum við að skoða hjól sem búið er framleiða a.m.k. frá árinu 2003 sem alveg nakið, en síðan árið 2005 hefur  hjólið verið með hálfri "feringu" og þá var S bætt við heiti hjólsins, sem og ABS bremsur og með smá "hanskahólfi". Þetta "retró" útlit vekur upp gamlar minningar hjá mörgum hjólamönnum. Á ofangreindum tíma töldu Yamaha verksmiðjurnar með XJR hjólið og Suzuki með GSX 1400 að til að hægt væri að kalla hjól "retró" þá yrði það að vera loftkælt. En Hondumenn hlustuðu ekkert á slíkt og því er 1284cc línumótor CB hjólsins vatnskældur. Ekki spurning að við nútíma notkun í mikilli umferð þá hentar vatnskælingin miklu betur og jú svo eru það auðvitað þessu grænu "kerlingar" sem eru að gera allskonar kröfur vegna mengunar. Þessi mótor "sleggja" er alveg frábær í akstri, það er endalaust tog um 11.8kg-m við 6000 snúninga. Það er í raun hægt að taka af stað í öllum gírum, en gírkassi er fimm gíra, er eins og nær allir Hondu gírkassar: Frábær. Það er engin þörf á því að vera hræra í gírkassa það er bara tekið á gjöfinni og CBinn tekur við þessu öllu, sama hvaða gír þú ert í og ekki má gleyma að hjólið er engin léttavigtar græja, vigtar um 236 kg. Þessi græja á að virka stór og karlmannleg ef segja má svo og jú "Retró". Stýrið er frekar breitt og liggur vel við ökumanni, svo ökumaður situr svona í hálfgerðri bænastellingu (gera það ekki flestir Hondueigendur !!). Sætið er stórt og rúmgott, hægt að stilla sætishæð, það fer vel bæði um ökumann sem og farþega, fótpetalar eru staðsettir frekar neðarlega og liggja vel við. CBinn er engin "racegræja" því þetta er fullvaxið mótorhjól og það fylgja því alltaf einhverjir mínusar þegar maður er svona stór er það ekki. Á litlum hraða þá virkar hjólið frekar þungt og ekki beint lipurt, en sætishæð er góð fyrir styttri menn og konur, þ.e.a.s. 790mm, svo ökumaður í meðalhæð ætti ekki að vera í  vandræðum að setja báða fætur niður ef þess er þörf. En hjólið "höndlar" vel í gegnum beygjur og það er hægt að halla því nógu mikið fyrir flesta. Vindhlíf virkar vel og tekur nær allan vind frá eftir hluta ökumanns þrátt fyrir að ekið sé eins og menn séu staddir á lokaðri braut. Allur frágangur er eins og nær alltaf hjá Honda: Fyrsta flokks. Bensíntankur tekur 21 ltr. og það er bensínmælir, af þessu magni er 4.5 ltr. á varatank. Eins og áður sagt er vélin fjögurra strokka línumótor, ventlar eru sextán, það er bein innspýting á hjólinu og hún virkar mjög vel, ekkert hik eða hikst. Hestaflatala er ekki svo há sögð 114 og hámarkshraði er sagður 220 km. Framdempara pípur eru 43mm og það eru tveir hefðbundnir demparar að aftan, ekki mikið um stillingar á fjöðrun þessa hjóls en eitthvað þó. Að framan eru tveir 310mm diskar og bremsudælur eru með 4 stimplum, að aftan er einn 256 mm diskur. Mælaborð er með slatta af ljósum sem og alls konar stillingar til að muna hitt og þetta og hraða og snúningsmæli í þessu analogue kerfi sem menn eru mishrifnir af. Þessi sleggja er sögð fara 17 km á einum lítra svo nú er bara að reikna hvað græjan eyðir á 100 km !! Hjólið fær góða dóma fyrir vélina og virkni hennar, þægilegt, hentar í flest, en það neikvæða er aðeins of hátt verð miðað við samkeppnina, smá titringur á 4000 snúningum. Nær allir eigendur þessa hjóls gefa því fyrstu einkunn en þrátt fyrir það og hafa verið í sölu lengi frá fyrstu kynningu þá hefur þessi CB aldrei selst í miklu magni. En gleymum ekki að þetta er HONDA og það segja sumir að það séu bestu hjólin, reyndar svona okkar á milli þá segja Súkku, Yamma og Kawaeigendur það sama að þeirra hjól séu bara allra best, Harley eigendur neita nær allir að ræða samanburð !!! Allt annað tæknilegt sem þið nennið ekki að lesa má finna á netinu eða jafnvel á fésinu.


Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni


06.09.2014 11:21

Aðalfundur Drullusokka 2014

Um næstu helgi verður hinn árlegi aðalfundur Drullusokka haldinn í Gullborgarhúsinu við Braggann.
Það verður klárlega gott veður þannig að við byrjum daginn á hjóleríi um eyjuna okkar, svo verður fundað, eftir fundinn verður tekið smá hlé og þar á eftir vindum við okkur í pizzuát og gosþamb (eða e-ð öðruvísi þamb).
Á fundinum förum við yfir hefðbundin mál s.s. stjórnarmál, ef einhverjir hafa áhuga á að bjóða sig fram í stjórn þá ekki hika við að gera það. Jóakim mætir með ársreikninginn og við förum yfir það hvað stjórnin gerði fyrir klúbbinn á liðnu Drullusokkaári og hvað er í bígerð, einnig hvað mætti betur fara.
Ef þið hafið nýjar hugmyndir, eða gamlar hugmyndir sem mætti endurvekja eða jafnvel áhuga á stjórnarsetu, endilega tjáið ykkur.

Vona að við sjáum sem flesta.

Ég ætla að reyna enn einu sinni að fá fólk til að skrifa í athugasemdir hér að neðan ef það ætlar sér að mæta, svo að við höfum einhverja hugmynd um ca. stærð fundarins uppá undirbúning að gera.

Með fyrirfram þökk.
Stjórnin.

05.09.2014 20:54


03.09.2014 23:51

Harley test


Sælir félagar,

Jæja það eru tveir menn búnir að væla !! mikið í mér að ekkert sé skrifað um draumhjólið þeirra Harley Davidson, þessir kæru félagar eiga báðir HONDUR og annar þeirra á líka Harley og hinn Súkku.
Súkku eigandinn hefur ekki hætt að tala um gæði Harley eftir að hann leigði sér eitt í USA í sumar, en öllu hefðbundu bulli slepptu þá er hér grein um
þessa nýju græju frá Harley og hún er sko vatnskæld, er hugsuð fyrir yngri kaupendur sem og eldri borgara (þessir tveir hér að ofan !!).





2015 Harley Davidson Street 750 vatnskældur

 

Jæja hér ætlum við að fjalla um það nýjasta frá Harley verksmiðjunum og í raun alveg nýtt frá Harley allavega frá því V-Rod var kynntur til sögunar hér um árið. Hér er hjól sem höfða á til yngri aldurshóps hjólamanna og ekki veitir af segja sumir því gömlu loftpressurnar virðast ekki alveg ná til þeirra yngri. Ekki byrjuðu þessar prufur vel á  þessu nýja hjóli því stýrislegur höfðu verið of hertar á prufuhjólunum, en eins og menn vita þá bila Harley aldrei en stundum koma fram svona smá verksmiðjugallar ! En þessu var reddað með öðru hjóli til að prufa. Svona við fyrstu sýn líkist hjólið dulítið V-Rod en strax við fyrstu metrana þá kom í ljós að hjólið "höndlar" betur en V-Rod, svona hlutlaust í beygjum og leggst vel inní þær án átaka. Þyngdarpuntur er neðarlega og hægt að leggja hjólið nokkuð vel án þess að eitthvað rekist niður. Street hjólið krúsar létt á 70 mílunum og virkar vel í lengri akstri þrátt fyrir að vera frekar lítið mótorhjól. Það vigtar um 500 pund með fullum bensíntank, sætishæð er 28.3 tommur (já já menn verða bara að snúa þessu yfir í kg og cm með apppppinu sínu). Hjólið var Dyno testað og niðurstaðan var nú svona og svona: Hestöfl 57.6 við 7955 rpm (snúninga) og togið var 43.2 lb.ft. við 3790 rpm, ekki svo slæmt af 750cc tveggja strokka hjóli. Það verður að koma því að það vantar nauðsynlega snúningshraðamælir á þetta hjól, en gleymum ekki að það má kaupa hann sem aukahlut fyrir lítið ! Á Dynobekknum var hjólið á 4.500 snúningum á 70 mílunum í sjötta gír, en útsláttur er við 8000 snúninga. Togið er gott í Streetinum er kannski ekki alvega á pari við t.d. 883 Sportinn, en hestöflin bæta vel fyrir það auk þess sem Streetinn snýst miklu meira, því hann er með keðjudrifna yfirliggjandi knastása og fjóra ventar á hvern strokk. Ekki er hægt að skrifa neina grein án þess að HONDA komi ekki við sögu og þá er gerður samanburður á NC700X Hondunni með útslátt á hæsta snúning en Honda gefur upp öndina á 6500 snúningum (slær út) komum að einu alvöru hjóli sem er Ducati Monster 696cc sem er gefin upp 65 hestar (við mótor) og togið er 44 lb.ft., svo Streetinn er bara að skila góðum niðurstöðum í afli og togi, ekki oft sem Harley gerir það miðað við verð. Streetinn er 4.6 sekúndur í 100 km hraða og fer ¼ míluna á 13.69 sekúndum og nær 93.8 mílna hraða, það tekur já NC700X Honduna 13.86 sekúndur að fara ¼ míluna og Hondan nær 94.2 mílna hraða. En berum saman tvo Harleyja þ.e.a.s. 883 Iron Sportsterinn og Streetinn á ¼ mílunni, þar tekur Streetinn, Sportsterinn í nefið því það tekur Sporsterinn 14.53 sekúndur að fara ¼ míluna og hann aðeins 90.8 mílna hraða. Til að það sé öruggt að fara hratt þá er nauðsyn að hafa góðar bremsur og þar fara málin að vandast aðeins, ja eins og var algengt hérna á árum áður hjá Harley, þ.e. lélegar bremsur. Það þarf að taka hressilega á frambremsu sem og afturbremsu til að hægja á Steetinum og þegar bremsur versna eftir því sem oftar er tekið hressilega á þeim, en það er einn diskur að framan og bremsudæla er með tveimur stimplum. Mælingar sýna að frá 100 km hraða tekur það 152 fet að stöðva Streetinn, en Harley verksmiðjurnar segjast vera að skoða þessi mál betur. Áseta er góð fyrir ökumann, en fyrir farþega er frekar þröngt ef segja má svo, en þröngt mega sáttir sitja segir einhversstaðar. Verðið á Streetinum er vel samkeppnisfært allavega í USA. Svo má líka skoða litla bróðir 750 Street hjólsins sem er mjög svipað en er 500 cc. Þarna eru komin tvö hjól sem örugglega höfða til yngri kaupenda, ja allavega vona Harley firmað það, hver verður fyrstur til að kaupa svona græju, ég veðja á einn í Vestmannaeyjum sem á HONDU sem og Harley og svo einn í Hafnarfirði sem á SÚKKU og HONDU, en dreymir um Harley á hverri nóttu eftir að hafa ekið svoleiðis græju í sumar, við sjáum til hvor verður á undan.

Stolið og stílfært af netinu:

Óli bruni




03.09.2014 23:42

Sokkur #93 á nýju hjóli


Sokkur #93 á nýja hjólinu.

Halldór Bjarna skipti 700 Shadownum út fyrir þessa græju.

Til hamingju með hjólið.

02.09.2014 23:17


Flettingar í dag: 431
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 1437
Gestir í gær: 25
Samtals flettingar: 788880
Samtals gestir: 55917
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 07:17:56