M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

28.11.2013 22:31

Saga Benelli

Tótu Steininn okkar gróf upp sögu Benelli á Youtube, mögnuð saga og gaman að horfa.



 Gaman væri að líta á þetta í samhenginu. Þarna er stiklað á stóru ( mjög ) í sögunni af Benelli og skemmtilegum hetjum þess tíma. Pasolini, Carruthers, Hailwood, Agostini, Sarinen ofl. koma við sögu.
 Sami dude setti líka saman Jútubara um seinni hluta sögunnar eftir að Nipparnir kaffærðu allt, sem er ágætur líka.

 Maður ætti kannski að taka nokkur kvöld í að koma þessari sögu yfir á íslensku, frá því að ung ekkja "Grande mama Theresa" með peyjana sex kom upp verkstæði 1911 til að koma þeim í vinnu og redda familíunni innkomu. 
  Síðan er rúmlega 100 ára sögu að segja, sem er bara alveg slatta skemmtileg!

Svona Túbari er svaka vinnusparnaður, en í staðinn vantar helling af kjöti á beinin. 

Bruninn og þeir sem nenna að skrifa A4 eða meira á viku eiga mikinn heiður skilið!

Steini Tótu

 

Og hér er svo seinni hlutinn.

26.11.2013 19:30

Mótorhjól í máli og myndum

Forlagið var að gefa út flotta bók sem á sjálfsagt eftir að rata í jólapakkann hjá einhverjum af okkur. Í síðustu viku fór fram kynning á bókinni i bókabúðinni hjá Bókabúðinni hans Tryggva. Drullusokkarnir Tryggvi og Jens sáu um kynninguna á bókinni og á næsta borði við þá var sjálfur Heiðar snyrtir að kynna svakalega lekker litgreininga bók sem þeir sokkafélagar sýndu mikinn áhuga. Ég hef heyrt af því að það séu til myndir af viðburðinum þannig að ég treysti á að þær eigi eftir að rata hingað inn.
 En hér er smá klausa um bókina:

Mótorhjól í máli og myndum

Mótorhjólabókin er full af fróðleik í máli og myndum. stækka

Mótorhjólabókin er full af fróðleik í máli og myndum.

Út er komin bókin Mótorhjól í máli og myndum þar sem farið er yfir 120 ára sögu farartækisins. Forlagið gefur hana út en bókin kemur út í einstakri þýðingu Guðna Kolbeinssonar. Örn Sigurðsson ritstýrði.

Fram til ársins 1920 var, eðli málsins samkvæmt, ekki mikið úrval hjóla en þá voru það frumkvöðlar á borð við Gottlieb Daimler sem, ja, fundu upp hjólið? Alla vega kom fram á sjónarsviðið gasknúin vél hjá þessum frumkvöðli og framhaldið þekkja flestir.

Eftir fyrri heimsstyrjöldina var farið að framleiða mótorhjól fyrir almenning og þá þótti ekki ónýtt að geta farið um á leifturhraða með fjölskylduna í hliðarvagni! Það dró aðeins úr þróun mótorhjóla í kreppunni á milli heimsstyrjaldanna en á sjötta áratugnum fóru hjólin aftur að snúast. Skúterinn sló í gegn og framleiðslan varð fjölbreyttari.

Svona er sagan rakin í bókinni fram til okkar dags og öll heimsins hjól kynnt til sögunnar í máli og myndum. Kostir og gallar eru teknir saman í hnitmiðuðum texta.

Fyrir áhugasama er ítarlega útskýrt aftast í bókinni hvernig mótor virkar og einnig hvernig hinar ýmsu gerðir mótora ganga, eins og loftkældur eins strokks mótor, loftkældur tvígengismótor og fleira sem gleður hjörtu ökuþóra.

[email protected]

Tekið af mbl.is


26.11.2013 13:00

Hmmm.....

Er ég að verða gamall eða hvað = OLD FART

 

Ég las grein í mótorhjólablaði einu nú fyrir ekki löngu og þar sem mér fannst hún alveg frábær þá setti ég hana niður á blað (þarf ekki mikið til að gleðja mig !!) En hún hefst með orðunum: Ég mun segja þér þegar þú ert orðin staðnað tuðandi gamalmenni= Old fart. Hver eru einkenni þessa sjúkdóms? Já áður en lengra er haldið þá er hann nær ólæknandi !! Fyrstu einkennin eru (sem þú tekur ekki eftir sjálfur) að þú ferð að gera athugasemdir við mótorhjól annarra manna og bendir á eitthvað og segir: Þetta er ekki orginal. Næstu einkenni eru að þú ferð að skoða hvort mótor og stell númer séu rétt án þess að vera beðin um það. Svo smátt og smátt eykst þetta og einn daginn sérð þú gamalt hjól sem er langt frá því að vera orginal og það situr ungur maður á því og þú segir USS upphátt, án þess að hafa verið spurður um álit. Þú ferð að tala um það við alla sem ekki vilja hlusta um hvaða bull þetta sé að breyta góðum orginal hjólum í eitthvað sem heitir: Bobber, Cafe Racer, Chopper, Street tracker  og þar með eyðileggja þau og segir án þess að vera spurður: Þetta er sko alveg hræðilegt ! Dagarnir líða og hvað næst: Jú þú sérð ungan mann á virkilega flottu gömlu orginal mótorhjóli og segir án þess að vera spurður: Hvað er að gerast í þessum heimi, einhver krakki á þessu flotta hjóli ! Sérfræðingar munu segja þér að þessi einkenni séu nokkuð eðlileg hjá leiðinda gamalmennum því æðar séu að kalka og þrengjast og þar með hægir á blóðflæði til heilans, en þú segir hvað vita þessi vitlausu sérfræðingar ég er enn orginal !. En þessi sjúkdómur læðist hægt og hægt að sumum án þess að viðkomandi verði þess var, en aðrir verða sko varir við það, sem sagt þú þessi gamli ert að breytast hægt og hægt í óþolandi tuðandi gamalmenni sem þolir ekkert nýtt.  Í þessari góðu grein er sagt að Old Fart einkennin hafi eyðilagt meira í mótorhjólaiðnaðinum en nær nokkuð annað, já nær lagt hann í rúst oftar en einu sinni, já við sjáum fyrir okkur bresku mótorhjólaverksmiðjurnar sem dóu hver á fætur annarri á ekki mörgum árum vegna staðnaðra OLD FARTS sem ekki hlustuðu á þá yngri með nýjar ferskar hugmyndir. Hvar fæðast flestar raunverulegar hugmyndir um hvernig mótorhjól eigi að líta út og virka, jú á götunni og hjá þeim sem nota þau og þá aðallega hjá yngri eigendum og notendum. Sjáum bara Harley komnir með tvö ný hjól fyrir árið 2014 bæði vatnskæld og eru 500cc og 750cc, það voru ekki Old farts sem báðu um þessi hjól í könnunum, nei það var ungdómurinn.  Gömlu tuðboxin eru búnir gleyma þremur megin atriðum notkunar mótorhjóla þegar þeir voru ungir: Hafa gaman að þessu-vera flottur-og já fá það !! Nei gömlu rekavið-tuðmennirnir tala bara um þessa gömlu góðu daga og einhver mótorhjól sem engin man eftir, jú nema sannar sögur! um olíuleka, bremsuleysi, lélega fjöðrun og svo einhvern ógnarhraða sem kallaðist Tonnið= 100 m.p.h. Það er sagt að ekkert ógni meira uppgerð og þar með sögu gamalla hjóla meira en Old farts. Jú þeir vilja bara allt orginal= olíuleka, bremsuleysi, lélega fjöðrun og ég tala nú ekki um t.d. frábær rafkerfi frá Lucas (prins of darkness), Amal blöndunga (stilla forever), lélega bolta og rær, allt verður að vera orginal og já eflaust líka loftið í hjólbörðum !! Hvernig þekkjum við þessi gömlu hró ja t.d. á mótorhjóla-sýningum eldri hjóla: Jú þeir sjást strax því þeir ganga tuðandi um og benda á allt sem þeir telja ekki orginal og segja USS USS USS, labba um með skeifu á vör og tala um þetta unga lið í þessum skrýtnu fötum, með tattoo fram á fingurgóma, en dauðöfunda þá í raun af því að þeir eiga þetta allt eftir og geta fengið sér á oddinn oft í viku. Þessir gömlu garmar telja að aðeins hjólin þeirra og þeirra tónlist sé það eina rétta og hvað þessir ungu eigendur YamKawHonsúkki hrísgrjónabrennara séu að reyna að sýnast USS USS. Þessir Old farts segja: Ég myndi sko aldrei selja Nortoninn minn til einhvers af þessum bólugröfnu unglingum nei kemur sko ekki til greina!  Þeir myndu bara eyðileggja þennan dýrgrip með electrónískri kveikju, betri bremsum og já guð hjálpi mér setja riðfría sexkanta bolta í mótor í stað ónýtra stjörnuskrúfa. Það skrýtna er að konur virðast nær alveg vera lausar við Old Fart sjúkdóminn og það má þakka fyrir það og þessir gömlu skarfar láta þær yngri alvega vera því þeir eru of uppteknir við að horfa á þær og upplifa gamla tíma. En það er von fyrir okkur alla því að Old Farts sjúkdómurinn er ekki ættgengur og alls ekki smitandi og það sést á mjög mörgum mótorhjólum eldri manna sem hika ekki við að betrumbæta allt sem illa var gert í upphafi, þeir lifa lífinu eins og þessir yngri, eru ófeimnir við að breyta í bobbera, cafe racera, choppera og gera það sem þeim langar við sitt hjól, jú af hverju ? þeir eiga það og mega og geta það, þeir nota hjólin sín, selja hjólin sín á sanngjörnu verði og ekki einhverjum Old fart á uppsprengdu verði til að ORGINALA og geyma svo falið í einhverjum skúr og aðeins sýnd á einhverjum sýningum þar það sem sést í mílu fjarlægð að þau eru aldrei notuð, uss það er eins og að eiga gullfallega konu og sofa aldrei hjá henni. En það skrýtna er að þessir ungu mótorhjólaeigendur bera oftast virðingu fyrir bæði Old farts og hinum þessum venjulegu gömlu hressu, því þeir læra af þeim og þá vonandi gera ekki sömu mistökin þegar þeir verða eldri og geri sem flestum kleyft að kaupa gömul mótorhjól á sanngjörnu verði og þar með viðhalda sögunni á réttan máta, því þeir ungu munu erfa heiminn. Lengi lifi saga gamalla mótorhjóla.

Stolið og stílfært úr mótorhjólablaði:

Óli ekki orginal bruni


26.11.2013 12:44

Mike the bike

Hér er grein sem hefði átt að birtast á undan "Ago" greininni, mín mistök.
Pistlahöfundurinn lét mig heyra það í morgun (hehe) þannig að hér er greinin um mann nr. 1.  (ekki drullusokk nr.1. )


Mike "the bike" Hailwood


Hver man ekki eftir ofangreindum kappakstursökumanni mótorhjóla, ef ekki þá hafa menn hugsanlega gleymt að lesa um mótorhjól svona almennt (smá grín). Mike Hailwood er og verður besti hjólaökumaður heimsins og eflaust segja margir hvað með alla hina sem keppt hafa á undan og eftir að Mike dó, eins og t.d. Giacomo Agostini sem reyndar Mike keppti við í mörg skipti, eða Doohan, Valentino Rossi, Phil Read o.fl. o.fl. Það verður að skoða þetta í réttu samhengi og miða einnig við hvaða hjólum menn voru að keppa á. En Mike var einn af þessum mönnum sem bara settist uppá hjólið sem nota átti í viðkomandi kappakstur og ók af stað, varð yfirleitt nr. eitt nema eitthvað bilaði. Af hverju var hann kallaður The bike, jú hann gat ekið öllu með stæl. Hann var ekkert mikið fyrir að kvarta yfir hinu og þessu, það bara reyndi á hans eiginleika. Hann var af ríku fólki komin og pabbi hans keypti allt það besta í mótorhjólaheiminum í upphafi fyrir hinn unga son, en gamli maðurinn hafði einnig keppt í kappakstri á sínum yngri árum, en þegar Mike var að vaxa úr grasi rak pabbi hans mótorhjólaumboð. Mike byrjaði á minibike á grasflötum nærri heimili sýnu, mjög svo ungur.  Mike reyndi fyrir sér á menntabrautinni en hætti fljótlega, fór síðan að vinna hjá pabba gamla og síðan hjá Triumph firmanu. Vegna ríkidæmis  Mikes eða réttara sagt pabba hans, varð það miklu erfiðara fyrir Mike að sanna sig í upphafi fyrir öllum hinum sem nær alltaf komu úr fátæku umhverfi. En það tók Mike yfirleitt ekki langan tíma að sanna sig, bæði á brautinni sem utan hennar, því hann var talin með skemmtilegri mönnum=hrókur alls fagnaðar og aldrei nein "prímadonna". Mike var fæddur 2. Apríl 1940 og dó í bílslysi ásamt dóttur sinni 23. mars 1981 aðeins fjörtíu ára gamall. Hvenær hófst svo saga hans á kappakstursbrautum heimsins jú á því herrans ári 1957 og þá á Oulton Park og var hann rétt orðin 17 ára, náði þá strax ellefta sæti. Strax á árinu 1958 vann hann sinn fyrsta kappakstur þá þolaksturskeppni í Thruxton 500. Hann hélt áfram að taka menn í nefið, en síðan kom að því að Honda menn sáu til Mikes og hann fór að keppa fyrir þá árið 1961. Og strax sama ár var Mike fyrsti maðurinn í sögunni til að vinna þrjá kappastra á Isle of Mann þegar hann vann í 125cc, 250cc og líka 500cc flokknum. Hann hefði líka unnið fjórða kappaksturinn ef keðja hefði ekki slitnað á 350cc AJS hjólinu hans hefði ekki slitnað. Það var síðan sama ár eða 1961 að Mike Hailwood varð 250cc heimsmeistari á fjögurra strokka Hondu. Árið eftir gekk Mike til liðs við MV Augusta og varð heimsmeistari með þeim fjögur ár í röð í 500cc flokknum. Síðan fór Mike aftur til Honda  og vann fjóra heimsmeistaratitla í viðbót í 250cc og 350cc flokkunum. Framagreint er bara hluti af því á þessum árum sem hann vann, t.d. árið 1965 vann hann Hutchinson 100  kappaksturinn á Silverstone á BSA Lightning Clubman svo það þurfti ekki Hondu til að vinna. En þessi kappakstur fór fram í mígandi rigningu og þarna sló hann við t.d. Triumph Bonneville verksmiðju "preppuðu" hjólunum. Meðalhraði Mike í þessari keppni var 134 km/klst. Eflaust er Hailwood þekktastur fyrir alla sýna vinninga í TT keppnum á Isle of Man (eða Manarkappaksturinn eins og ég las nýlega í nýrri Íslenskri mótorhjólabók), því þegar árið 1967 gekk í garð hafði Mike unnið þarna tólf sinnum, en frægsta keppni hans var eflaust sú á árinu 1967 þegar hann og Agostini áttust við í Senior TT, en endaði með því að Mike vann, meðalhraði hans voru 175.05 km/klst. og það met stóð í ein átta ár, þessa keppni vann hann á Hondu RC181. Áður en lengra er haldið þá hætti Mike að keppa á mótorhjólum og sneri sér að kappakstri bíla og gerði góða hluti þar bæði í Formúlu Eitt og World Sport Cars, vann t.d. árið 1972 Formúlu tvö Evrópu titilinn og komst á pall árið 1969 í 24 tíma keppni Le Mans, lesa má betur á internetinu um afrek Mike í bifreiðakappakstri, en hann hætti að keppa á bílum árið 1974 eftir að hafa slasast nokkuð mikið í keppni í þýska Grand Prix í Nurburghringnum. En Mike var sko ekki hættur því 3. Júní 1978 kom hann til baka og keppti aftur í Isle of Man TT hjólakappakstrinum, þá búin að vera hættur í ellefu ár. Hann var orðin 38 ára og nær allir töldu að hann ætti engan möguleika á verðlaunasæti eftir svo langa fjarveru. Hann fékk hjól frá Ducati umboði í Manchester sem hét Sports Motorcycles, hjólið var Ducati 900SS með feringum og Mike kom öllum á óvart nema þeim sem þekktu hann og vann kappaksturinn með stæl, við gífurlegan fögnuð áhorfenda. Hann kom aftur árið á eftir í sömu keppni og ók þá "tútattara " Suzuki RG500 og vann. Mætti síðan síðar þessa helgi á sama hjóli í Unlimited Classic keppina og slóst um fyrsta sætið við Alex nokkurn George sem ók 1100 Hondu og þar munaði aðeins tveim sekúndum á milli þeirra félaga en Alex vann. Eftir að Mike hætti keppni þá opnaði hann Hondu umboð í Birmingham í Englandi og hét það Hailwood and Gould (Rodney Gould einnig kappaksturhetja). Það var síðan sunnudaginn 21. Mars 1981 að Mike var að aka með börnum sínum tveimur þeim Michelle og David og á leiðinni að ná sér í fisk og franskar, þegar ökumaður stórar vörubifreiðar tók ranga ákvörðun og ók í veg fyrir Mike, dóttir hans Michelle lést samstundis en Mike og sonur hans voru fluttir á sjúkrahús þar sem Mike lést tveimur dögum síðar af meiðslum sínum, hann var 40 ára gamall, sonur hans David slapp með smávægileg meiðsli. Þess má geta að ökumaður vörubifreiðarinnar var aðeins sektaður um 100 pund. Sagan segir að Mike hefði sagt konu sinni sem og spákonu einni að hann myndi deyja 40 ára gamall í bifreiðaslysi og þá ekki í kappakstri. Saga Mike "The bike" lifir góðu lífi og er margt gert til að minnast hans t.d. árleg Mike Hailwood Memorial Run í mars á hverju ári frá fyrrverandi Norton verksmiðjunum í Birmingham. Hailwood vann 76 Grand Prix kappakstra og komst 112 sinnum á pall í þeim kappakstri, 14 Isle of Man TT, 9 heimsmeistaratitla ofl. ofl. ofl. Ducati heiðraði minningu hans með því að smíða Ducati 900ss Hailwood replicu og voru seld um 7000 þannig hjól, Ducati endurtók reyndar leikinn aftur nokkuð mörgum árum síðar. Margt annað hefur verið gert til að minnast þessa heiðurs-manns t.d. var hann heiðursfélagi í AMA Motorcycle Hall of Fame árið 2000 og ári síðar International Motorsports Hall of Fame og minning hans lifir um ókomin ár.


Stolið og stílfært af netinu:  Óli bruni

 Þetta er sko alvöru mótorhjólagæji.


25.11.2013 22:35

Sá næst besti,,, (segir Óli allavegana )

Ein massagrein úr kappaksturssögunni, ekki síður gaman að velta sér uppúr kappakstrinum en hjólunum.

Agostini.


Byrjum á ferlinum, já sæll 186 keppnir og 122 sigrar.

Giacomo Agostini "næst" frægasti mótorhjólaökumaður allra tíma.

Karlinn á Yammanum

Hverjum myndi hugnast að fullyrða eitthvað svona ?! Jú auðvitað ég, því alveg sama hvað titlar segja þ.e.a.s. fjöldi titla þá var bara einfaldlega Mike "The bike" Hailwood betri. Af hverju var Hailwood betri ? Jú ef menn og konur skoða á hvaða hjólum þeir voru að keppa þ.e.a.s. hvaða framleiðendur voru með þá á samning, þá sést fljótt að það var nokkuð mikill munur á því. En þetta er bara álit mitt og eflaust örfárra annarra !! Agostini var fæddur á Ítalíu 16.06.1942 í Brescia, Lombardi, er reyndar alltaf kallaður Ago. Hann Ago náði sér í örfáa ! ökumannstitla t.d. 122 í Grand Prix, 15 heimsmeistaratitla, af öllum þessum vinningum vann hann 68 sinnum á 500cc hjólum auk 8 titla, restin var á 350cc hjólum. Hvernig hófst þetta allt saman jú í upphafi í svona brekkukeppnum og almennu drullumalli síðan á götuhjólum. Pabbi hans var nú ekki ánægður með þennan áhuga unga mannsins á mótorhjólum, "skrýtið" og reyndi allt til að Ago hætti þessu bulli. En svo sá gamli maðurinn að drengurinn var snillingur á hjólum og ekki leið á löngu þangað til að Ago árið 1963 varð Ítalíumeistari á 175cc Morini hjóli. En Ago var með heppnina með sér þegar einn af ökumönnum Morini (Taquinio Provini) hætti og fór yfir til Benelli og því komst Ago að. Það var Count Alfonso Morini sem réð ungan manninn til að keppa fyrir sig. Árið 1964 vann Ago Ítalska 350cc titilinn og náði fjórða sætinu á Monza brautinni í Grand Prix keppni. Ævintýrið var hafið. Það var síðan Count Domenico Agusta sem nældi í ungan manninn til að aka MV Agusta hjólum og það var engin aukvisi sem var með í hópnum því það var sjálfur Mike Hailwood. Ago barðist síðan við Jim Redman sem ók á Hondu um heimsmeistaratitil 350cc fyrir árið 1965 og Ago var með þetta í hendi sér, en MV Agusta hjólið bilaði í síðustu keppni ársins á Suzuka brautinni í Japan og Redman varð heimsmeistari.  Eftir að keppnum ársins 1965 lauk þá hætti Hailwood og fór yfir til Honda (skrýtið!!), því Mike samdi ekki við Count Agusta. Þá varð Ago ökumaður nr. 1 hjá Agusta og varð sjö ár í röð heimsmeistari í 500cc flokknum á MV Agusta, sem og einnig sjö sinnum í 350cc flokknum. Ago nældi sér einnig í 10 Isle of Man TT titla. Ago og Hailwood háðu oft harða keppni og þeir börðust um 1967 heimsmeistaratitilinn og Ago náði þeim titli í síðustu Grand Prix keppni ársins. Ago tók stóra ákvörðun á árinu 1972 þegar hann tilkynnti að hann myndi aldrei aftur keppa í TT keppninni á Isle of Man, vegna þess að góður vinur hans Gilberto Parlotti fórst þar í keppni, þetta olli miklu fjarðafoki. Ago sagði að 37 mílna braut Isle of Man væri einfaldlega stórhættuleg fyrir Grand Prix keppnir, en þessi TT keppni var með þeim vinsælustu og þar voru það aðeins þeir langbestu sem unnu, eða réttara sagt menn með tvær risastórar kúlur eða þannig sko. En Grand Prix keppnum var hætt þarna árið 1977. Ago kom mönnum enn og aftur á óvart þegar hann hætti hjá Agusta og gekk til liðs við Yamaha árið 1974, minnir á þegar Rossi hætti hjá Honda og fór til Yamaha, en það er nú önnur saga. Í sinni fyrstu keppni fyrir Yamaha vann hann Daytona 200 kappaksturinn og varð 1974 350cc heimsmeistari á Yamaha, en meiðsli og bilanir 500cc hjólsins komu í veg fyrir að hann tæki þann titil líka. En Ago kom á fullu gasi til baka á árinu 1975 og nældi sér í 500cc titilinn og var það í fyrsta sinn sem tvígengis græja náði þeim titli. Þetta var síðasta árið sem Ago vann heimsmeistaratitil og þá orðin 33 ára. Árið eftir ók Ago bæði Yamaha og MV Agusta hjólum í 500cc flokknum, en tók aðeins einu sinni þetta ár í 350cc flokknum og vann þá í Assen. Nurburgring er ekki fyrir alla en þar tók Ago þátt í 500cc flokknum á MV Agusta og vann þá sinn síðasta kappakstur og líka var þetta í síðasta sinn sem MV Agusta var á verðlaunapalli sem og að fjórgengishjólin höfðu lokið blómaskeiði sínu a.m.k. í bili. Ago hætti öllum hjólakappakstri árið 1977 en það ár varð hann sjötti í heimsmeistarakeppninni. En eins og Hailwood tók Ago þátt í formúlu eitt bílakappakstri og fleiri keppnum á bifreiðum en hætti því árið 1980. Árið 1982 tók hann að sér að vera liðsstjóri fyrir Malboro Yamaha og stýrði frægum mönnum eins og Kenny Roberts og Eddie Lawson. Ago tók einnig að sér að stýra aksturshóp Cagiva árið 1992. Ég sá Ago fyrir nokkrum árum á hjólasýningu í Englandi og heyrði líka í honum þegar hann lýsti einum kappakstri sem hann tók þátt í. Flottur karl og mjög vinsæll um allan heim og Ítalir elska hann jafnmikið og Rossi.



Og hér er gamli orðinn gamall..

Stolið og stílfært af netinu Óli bruni


25.11.2013 22:21

Kawasaki Z1000 2013


Hér er flott grein frá Cadwell Park djammaranum okkar um ansi skemmtilegan Kawa.

Kawasaki Z-1000

Hvað heillar flest okkar ? Jú að sjá hlutina eins og þeir eru= Nakið sporthjól Kawasaki Z-1000 árgerð 2013.


Hvenær kom Zetan fyrst fyrir sjónir almennings jú á því herrans ári 2003 (átti reyndar að heita ZR1000 heyrði ég). Þetta nýja hjól var til að fagna eina/fyrsta súperbæki heimsins þ.e.a.s. Z 1 sem kom á götuna þrjátíu árum fyrr eða 1973 (já já ég veit um CB Honduna). Þessi nýja Zta vakti strax athygli fyrir flott útlit og þarna árið 2003 var það ekki spurning að Z 1000 hjólið var flottasta nakta Japanska sporthjólið á markaðinum, skoðið bara myndir af hjólinu frá þessum tíma. Það var skráð með 123 hestafla mótor og stærð hans uppgefin 953cc og hjólið sko lét vita af sér ef skrúfað var upp á rörið, já hægt að spara framdekk verulega ! En samt var það nokkuð þægilegt í innanbæjar skjögti. Árið 2007 var aðeins hresst uppá hjólið með nýju útliti og auknu togi, síðan varð algjör breyting á hjólinu árið 2010, þegar t.d. að mótor var stækkaður um 90cc og við bættust 13 hestöfl og hjólið kom með ABS sem staðalbúnað. Einnig bættist við ný týpa sem kölluð var Z 1000SZ svona ferðaútgáfa með feringu og annarri fjöðrun og bæta mátti við töskum, svona fyrir þá eldri. Ztan hefur átt sér stóran aðdáenda hóp frá upphafi, en reyndar hefur litli bróðir Z 750 selst betur. Það er gaman að bæta því við að gerð var könnun meðal 58 eiganda Ztunnar sem höfðu ekið samtals 500þús mílur og þessi hópur var í raun á flestum árgerðum Ztunnar og um helmingur hafði keypt hjólið sitt nýtt, ¼  hafði keypt hjól sem var ekið í kringum 5000 mílur. Um 40% af af eigendum hjólanna hafði ekið meira en 10þús mílur frá því þeir eignuðust hjólið og þrír af þeim höfðu ekið yfir 30þús mílur og allir sögðust þeirra kaup svona hjól aftur. Smá hugleiðingar um hjólbarða en fyrstu hjólin komu með Battleax Bt-01 dekkjum en seinni hjól komu með Dunlop Sprotmax. Mjög margir sem skipta um dekk fara yfir á Michelin Pilot Power 2CT eða Pilot Road 3 og jú fleiri tegundir. Hjólið er sagt eyða nokkuð miklu en eins og alltaf fer eftir ökumanni. Zetan er sögð vel byggð og frágangur almennt góður og mjög lítið um kvartanir vegna þess. Nýjasta hjólið þ.e.a.s. árgerð 2013 er sagt langt besta 1000 Zetan fram að þessu og er sagt alvöru "streetfighter". Afl, tog, útlit og aksturseiginleikar er  með því besta á markaðinum. Flestir sem taka í þessa nýju Ztu kaupa hana,ef á annað borð þeir eru að leita sér að hjóli í þessum stærðarflokk.  Eina sem kvartað er yfir er lítill bensíntankur og hart sæti. Skoðum hjólið aðeins betur og byrjum þá á pústkerfið, en hljóðkútar eru beggja vegna og halla upp, en samsetning greina og allra þessa óþarfa mengunardóts eru undir hjólinu, en þetta er bara flott og ekki eins og á of mörgum hjólum í dag þar sem hljóðkútur er bara öðru megin, þannig næst einnig að halla má hjólinu miklu meira. Sætishæð er sögð 32.1 tomma og það er það lágt að jafnvel þeir endastyttri ná niður öfugt við mörg önnur sporthjól. Bensíntankur er vel lagaður þannig að hné leggjast í raun inní tank. Grind er sögð tækniundur og er mikið byggð á ZX-10R hjólinu. Mælaborð er svona eins og mörg hjól í dag, fullt af Ledljósum og digital mælar. En gott er að lesa af mælum jafnvel í mikilli sól. Áseta eins og áður sagt góð og ekki þarf að teygja sig í stýri sem er svona"flatbar" stýri. Hjólið er mjög hljóðlátt í hægagangi og það breytist ekki mikið þó snúið sé uppá rörið. Eins og oft þá er viðtaka inngjafar svona dulítið snögg eins og oft á hjólum með beina innspýtingu og alltaf nóg afl og lítið mál að losa sig við ökuskýrteini ef ekki er fylgst með hraðamæli. Gírkassi er góður og jafnvel þegar virkilega er tekið á því þá rennur hjólið í alla gíra. En þegar er komið vel yfir þriggja stafa tölu í hraða þá fer að taka vel í og menn þreytast fljótt á hraðbrautum, allavega á lengri leiðum á "góðum" hraða. Bremsur eru virkilega góðar og að framan eru tveir fljótandi  300mm diskar og bremsudælur eru fjögurra stimpla. Framfjöðrun er stillanleg í báðar áttir og eru framlappir 41mm. Það mun engum leiðast á þessu hjóli, frábærir aksturseiginleikar og afl, meirihátta flott útlit, hvað vilja menn meira ? JÚ skoðið bara myndir af 2014 hjólinu þá kemur svarið. Þetta hjól er svona villinga tæki og menn munu örugglega vera mikið á afturdekkinu og já þræða milli bíla á gatnamótum og aka of hratt innanbæjar, nei nei þetta má ekki, en það má skreppa til Vestmannaeyja og prjóna bara á bryggjunni er það ekki. Lesa má betur um allt tæknilegt á netinu. 

Stolið og stílfært af netinu Óli bruni


25.11.2013 10:33

Davíð Einasson á z 650




Hér er Davíð Þór Einarsson á Kawasaki z 650.



Og hér er kallinn svo lentur.

22.11.2013 20:23

Góður með Goddi




Djöfull tekur fyrrum formaður drullusokka sig vel út með Godd hinum eina og sanna.



Nú ligga þeir í stóru fýluni í Hafnarfirði fermingarbræður Godds, þeir Dr Bjössi og Gummi Dolla en allir eru þeir af  árg 1955. Ef þeir fermingarbræður Godds verða illa fúlir með þetta að þá á ég Heiðar Snyrtir á lager. ha ha ha.

22.11.2013 12:45

Cadwell Park BSB

Flott klippa frá Cadwell Park í sumar í breska súperbike-inu. Gaurarnir láta heldur betur vaða á hæðina (the mountain) og er brautin þekktust fyrir hana. Josh Brookes á Súkku #2 tekur þessa "hæð" af ótrúlegri snilld eins og sést í klippunni.
 

20.11.2013 19:43

Athyglisvert test.

Hér er verið að bera saman ansi ólík ökutæki á braut, það er reyndar þybbinn breti með svæfandi málróm að blaðra mest allan tímann, en samt gaman að sjá niðurstöðuna úr þessu testi á þessum mögnuðu tækjum.

 

20.11.2013 17:20

Kawasaki að koma með flott prepp!

að gefnu tilefni að Sokkur #1  er með  pressu á mann þá kemur hérna stutt færsla til að byrja með.


Kawasaki  sýndi vél  sem er að öllumlíkindum 1000cc eða stærri  með skolloftsblásara (supercharged)  en ekkert hefur verið gefið upp, en getgátur eru eftir heimildamanni innan kawasaki að þetta sé næsti zzr1400/zx14  mótorinn.


  hér er  greinin  frá MCN http://www.motorcyclenews.com/MCN/News/newsresults/New-bikes/2013/November/nov2013-kawasaki-unveil-supercharged-engine/

18.11.2013 10:19

Samprjón á bryggjuni.




Samprjón gæti þessi heitið Egill Sveinbjörns fjær og Gauji Gunnsteins nær.



Hér er Siggi Óli gjaldkeri okkar og sokkur 69 á Kawasaki 1000 hjóli sínu og fjær Gummi Gísla á Kawa Z 750. 1000 Kawann átti nýjan Biddi Ríng á Akureyri.



Annað samprjón Þeirra Sigga Óla og Gumma Gísla.

16.11.2013 13:19

Dragrace.....................




VS



 Á hvað tippa menn ?

14.11.2013 23:46

Supermoto

Jæja, það er farið að stittast í sumarið, þá er tilvalið að kíkja á supermoto klippur á youtube.
Þetta videó er nú ekkert spes, nema að mér finnst brautin virkilega spennandi.

13.11.2013 21:50

Innsent bréf.......

Okkur barst þetta bréf nú á dögunum, ágætis pælingar hér..



Kæru heimasíðu aðdáendur, áhugamenn mótorhjóla og svo bara þeir sem lesa allt.

Reyni að vera ekki of heimspekilegur (frekar auðvelt fyrir mig), en mig langar að setja niður á blað nokkrar línur um netfjölmiðla þá sem við notum flest dags, daglega og hverjir eru þessir fjölmiðlar: Jú eflaust í fyrsta sæti er "fésið" þar sem menn/konur geta tjáð sig um alla skapaða hluti, t.d. næstu klósettferð, hvað er í matinn, (í rangri röð !!), næsta partí, nýi kjóllinn/jakkinn og  allt sem hægt er að bulla um pólitíkina (úff) o.fl. o.fl. o.fl. Þetta lesum við sem eru "fésarar" og lækum eða kommentum á þetta eins og engin sé morgundagurinn. Það kemur bros á vör þegar maður sér jafnvel 30-40 læk á hvað einhver sagði frá um hvað var í matinn !! og að sjálfsögðu nokkur komment. Þegar maður spyr sjálfan sig sem og aðra t.d. leiðist okkur svona eða er þetta bara hinn nýi heimur, öll samskipti á "fésinu" !!?? Þá fær maður nú bara þetta augnaráð sem þýðir, sá er orðin gamall og þreyttur, fylgist ekkert með ! Ég tala nú ekki um þá fornmenn/konur sem ekki eru með í leiknum= ekki á "fésinu" þeir eru nú bara ekki viðræðuhæfir ættu að vera komnir á elliheimili. En nóg tuð um "fésið" það sem ég ætlaði aðallega að JÁ kommenta á eru heimasíður sem engin leið er að bera saman við "fésið", því þetta er allt annar samskiptamiðill og byggður upp á allt annan máta, (ætla ekki útí tæknihliðina, úff það er eins og lesa um Hondur!!). Nær öfugt við "fésið" þá kallar vinna við heimasíður á mjög mjög mikla vinnu, því ef ekki er stöðugt verið að setja inn nýtt efni þá deyja þær drottni sínum hratt og vel. En við lifum í heimi þar sem við krefjumst stöðugra nýunga, ekki bara daglegra heldur oft á dag helst. Til að viðhalda áhuga okkar þurfa þeir sem halda utanum heimasíður að vera stöðugt að leita að nýju efni, ja bara svipað og mbl.is eða visir.is. Getum við hin ímyndað okkur hvað þetta er mikil vinna, nei alveg örugglega ekki, nema að við leggjum þessum aðilum lið. Hvernig spyr maður ? Jú með því að lágmarki að setja inn umsagnir (komment) um það efni sem birtist okkur á heimasíðunni, eða þá þeir duglegri að senda inn efni um allt og ekkert (mótorhjól/mótorhjólasögur/mótorhjólamyndir). Hvernig stendur á því að heimasíður sem lesnar eru af tugi manna daglega, fái engin "komment" eða "læk", er það svona miklu meiri vinna en á "fésinu" spyr maður, því flottar ljósmyndir, sögur og greinar fá að meðaltali eitt komment og kannski þrjú læk. Nú eru eflaust margir sem nenna að lesa þetta farnir að segja, þvílíkt "helvítis" tuð og röfl í þessu staðnaða liði, veit það ekki að "fésið" er málið og þar eru allir !! En tölur segja annað á teljurum heimasíðu. Því segi ég kæru heimasíðu aðdáendur, styðjum við bakið á þessu frábæra fólki sem leggur á sig ómælda vinnu við að halda áhugamáli okkar gangandi og SETJUM INN LÆK OG KOMMENT, eða tjáum okkur um hvað mætti betur fara, hvað ætti að skrifa um og svona má lengi telja. Ég trúi á okkur öll að þegar á reynir þá tökum við okkur taki, því það væri mjög dapurt ef heimasíður um mótorhjól færu til hjólahimnaríkis. Lengi lifi heimasíður.

Kv. Heimasíðuaðdáandi og (uss ekki segja frá á fésinu yfir öxl konunnar)



Flettingar í dag: 1037
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 1305
Gestir í gær: 68
Samtals flettingar: 1240815
Samtals gestir: 79188
Tölur uppfærðar: 19.9.2024 10:49:45