M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

Færslur: 2015 Febrúar

27.02.2015 12:29

R1 2015

Hér er smá brunaklausa um nýja R1
Hjólið er með mörgum nýjungum sem eru að virka vel, og að auki er hjólið mjög töff.
Enn er þetta frábæra stjórnkerfi 123 ekki að virka hjá mér, og get ég því ekki sett inn nýjar myndir, en þessi hefur verið byrt hér áður, látum hana duga í bili.



Yamaha YZF R1 2015


Hverjum langar ekki í 200 hestafla græju sem leikur sér að því að fara í ++ 300 km hraða, þ.e.a.s. ef ökumaður þorir því (á lokaðri braut að sjálfsögðu). Blaðamenn mótorhjólablaða hafa kvartað yfir því að hálfgerð kreppa hafi staðið yfir í nokkurn tíma vegna nýrra superhjóla, þ.e.a.s. þessi eins lítra hjól hafa í raun staðið í stað í nokkurn tíma. En nú hafa Yamma menn tekið til hendinni og komið með alveg nýtt R1 og líka sérútgáfu sem kölluð er R1M. Þessi nýja græja er svo hlaðin tölvustýrðum búnaði að öllu er stýrt með "rafheila", t.d. hvernig átak til afturhjólbarða er stýrt miðað við hvernig þú hallar hjólinu, ef þú prjónar, ef þú "slædar" og þessi búnaður er samtengdur við ABS bremsukerfi hjólsins. Allt þetta er sótt frá reynslu manna frá MotoGP.

Reynar er ofangreindur búnaður búin að vera til um tíma, en hefur verið verulega endurbættur, þannig að margfalt minni hætta er á að þú missir stjórn á hjólinu. Gæti það orðið svo að jafnvel "slarkfær" ökumaður verði góður þ.e.a.s. tölvan leiðréttir alla vitleysu sem ökumaður gerir !!?? Allir þessir skynjarar skynja halla hjólsins, hvort það halli fram (við hemlun) eða framhjól sé á lofti, tölvan endurles allt 125 sinnum á sekúndu, þannig að lítil hætta er á að þú "slædir" hjólinu í götuna, eða prjónir yfir þig.

En hvað segja prufuökumenn um þetta allt saman, er búið að taka alla skemmtun frá mönnum ?? Nei hjólið virkar léttara og minna um sig, einnig aflmeira og þér líður eins og þú getir í raun allt án þess að bíða tjón af. Jæja hvað veldur því að þessi græja er svona skemmtileg og virkar svona flott: Mótor er alveg nýr, er fjögurra strokka línumótor 998cc, fjórir ventlar per strokk, sveifarás er í raun frá GP hjólinu, stimplar eru það sem kallað er short-skirted, stimpilstangir eru úr titanium, þjappa er 13.0:1, gírkassi er sex gíra og kúpling er að sjálfsögðu "slipper" = læsum ekki afturhjóli við að skipta niður. Hestöfl er sögð 200 hp.

Grindin er líka alveg ný Deltabox er 10mm styttri en á fyrra hjóli og þar með verður hjólið "sneggra" í meðförum. Pústkerfi er úr titanium sem og hljóðkútur sem er að miklu leiti undir hjólinu, felgur eru tíu bita úrmagnesium og allt er þetta hugsað til að létta hjólið. Fjöðrun er KYP og framdemparapípur eru 43mm, hreyfisvið/fjöðrun framhjóls er 4.7 tommur. Öll fjöðrun er stillanleg að sjálfsögðu. Að framan eru tveir fljótandi 320mm bremsudiskar og bremsudælur eru fjögurra stimpla frá Nissin. Þyngd hjólsins er sögð 439 lbs. með bensíni og olíu, besíntankur er úr áli, einnig hugsað til að létta hjólið. Margir þekktir atvinnuökumenn hafa prufað hjólið og þeir hæla því allir og segja að þetta nýja hjól sé margfalt betra til brautarakstur því það megi bara skella brautarhjólbörðum undir græjuna og fara að keppa, það var alls ekki hægt á eldra hjólinu, þar þurfti að fara í alls konar endurstillingar o.fl. Lesa má miklu meira um hjólið, þ.e.a.s. miklu nákvæmari lýsingu á öllu þessu tæknilega á netinu.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni



24.02.2015 08:52

Landsmót bifhjólafólks 2015



Landsmót bifhjólafólks 2015 verður haldið í Vestmannaeyjum fyrstu helgina í júlí.
Stjórnin er búin að vera að vinna að hinum ýmsu málum í kringum mótið, megin atriðin komin á hreint en enn nokkrir lausir endar sem eftir á að ganga frá.
Bæjaryfirvöld hafa tekið vel í þetta ásamt lögreglustjóra. Það verður mikið í gangi á eyjunni okkar þessa helgina þar sem goslokahátíðin verður haldin á sama tíma.
Eimskip ætlar að bjóða upp á aukaferð með Herjólfi ætlaða gestum á landsmótið, við eigum eftir að festa tíma á aukaferðina.
Landsmótið verður svo haldið í Herjólfsdal, og veðrið verður örugglega fínt.

Ef fólk er tilbúið að aðstoða við að gera þessa helgi flotta þá óskum við hér með eftir því fólki.  Þetta verður bara gaman.

Kveðja

stjórnin.

19.02.2015 12:19

HONDA

Enn er vesen að koma myndum inn,, þannig að þessi færsla er myndalaus til að byrja með.


Honda CBR1000RR


Sannar sögur segja að á heimasíðum mótorhjólafélaga eigi að vera a.m.k. ein ný mynd af Hondu dag hvern og fjallað sé skriflega um einhverja Hondu einu sinni í viku, en þetta er eflaust bara bull eins og margt annað, ekki satt ??

En við ætlum að fjalla um eina alvöru græju sem hefur verið vinsæl í mjög mörg ár og ekkert virðist lát á þeim vinsældum, skiljanlega segi ég, því meira að segja ég átti eitt í smá tíma eitt en fannst aflið ekki nóg !!!! og fékk mér því Harley !!

Honda CBR1000RR árgerð 2015 er nýjasta RR hjólið frá Honda kemur með 999.8 cc mótor og með tveimur yfirliggjandi knastásum og sextán ventlum, afl er gefið upp 133KW við 12.250 snúninga og togið er 114nm miðað við 10.500 snúninga. Þjappan er gefin upp 12.3:1, strokkar eru húðaðir með nickel silicon carbide sem á að endast líf hjólsins segja Hondu menn. Að sjálfsögðu er hjólið með beinni innspýtingu sem stýrt er af PGM-DSFI kerfi og þetta kerfi er hugsað til að stilla blöndu inná á  endurhannað hedd og með því aukið afl og tog. Einnig til að tryggja að mótor taki rétt við sér við allar inngjafir.

Kúpling er svona svipuð og í MotoGP hjólunum og er með slipper búnaði þannig að hraðar niðurskiptingar læsa ekki afturhjóli og sama á við fulla inngjöf, hjólið á aldrei að snuða á kúplingu. Með þessum búnaði á ökumaður að vera nokkuð öruggur með að afturhjól tapi síður gripi.

Grind er úr áli (die cast) og er byggð úr það sem kallað er Twin Spar grind, þetta gerir grind sterka og stífa sem er algjör nauðsyn fyrir svona hjól, sem er bæði nothæft á braut sem og meðal almennings. Allt er þetta lært af reynslu Honda á kappaakstursbrautum heimsins. Þyngd hjólsins er sögð 200 kg og þyngdardreifing er 51.6%/47.4%. Afturgaffall er úr áli og er frekar langur og það atriði er einnig sótt í MotoGP er með Unit Pro Link fjöðrun sem gerir það að verkum að afturhjólabarði heldur sér við malbikið og ökumaður finnur betur fyrir því hvernig hjólið hegðar sér við t.d. hressilega inngjöf útúr beygjum.

Áseta var endurhönnuð 2014 í samræmi ábendingar eigenda þessa hjóls og gerð meira svona líkari brautarásetu, standpedalar voru færðir aftar um 10mm, stýrið varð breiðara og lækkað aðeins miðað við fyrri árgerðir. Framdemparar eru frá Skowa eru 43mm og eru það sem kallað er Inverted (upside down) og eru með stimplum og kerfi sem kallað er BPFF og þetta er hönnun sem gerir það að verkum að það má bremsa hressilega sem og að taka hressilega af stað eða taka svona eina suðurey á þetta (prjóna). Afturfjöðrun er líka frá Showa og kallast BFRC, þetta er ný hönnun. Öll fjöðrun er stillanleg í báðar áttir.

 

 

Svo stýrið slái ökumann ekki eða láti illa við átök t.d. útúr beygjum þá er á hjólinu rafstýrður stýrisdempari, sem nemur ýmsa hegðun hjólsins og við allar aðstæður og hraða. Maður gæti bara farið að sofa áhyggjulaust við akstur !!! Tölvur sjá um nær allt !!! Felgur eru tólf bita, fram og afturfelgur er 17 tommu. Frambremsa er fjögurra stimpla, bremsudiskar eru tveir og eru fljótandi 320mm, afturbremsa er með einum stimpli og 220mm bremsudisk. Hjólið er hægt að fá með ABS og er þá fram og afturbremsa samtengd. Þetta bremsukerfi hefur verið hugsað og útfært þannig að ökumaður ætti ekki að fá titring uppí stýri við að taka hressilega á bremsum.

Mælaborð gefur þér ýmsar upplýsingar með LCD og sagt er að mjög gott sé að lesa á alla mæla við allar aðstæður. Einnig er mælir til að mæla tíma í braut og bíður hann uppá fjórar mismunandi stillingar. Mælaborðið sýnir þér einnig í hvaða gír þú ert. Hægt er að fá alls konar aukabúnað á hjólið frá Honda sjálfum t.d. hærra gler, hlíf yfir sæti að aftan þannig að hjólið sé eins manns (sem það er hvort er eð). Þessi skrif eru mikið stytt úr nokkrum greinum frá nokkrum blaðamönnum. En þeir segja allir það sama hjólið er frábært í akstri sama hvort það sé á braut eða meðal almennings, allur frágangur er til fyrirmyndar eins og nær alltaf frá Honda. Það ættum engum að leiðast á þessari græju. Allt annað tæknilegt sem og annað má lesa á netinu.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni (Hondu notandi/eigandi)

 

 


16.02.2015 19:01

Svaka tjúbari

Superbike gaurar dagsins í dag eru harðir naglar með stáltaugar, en superbike gaurarnir í þessari klippu eru það líka x 10. Þessi klippa er frá keppni á Laguna seca brautinni í USA í AMA superbikeinu frá 1979. Í keppninni eru menn að prófa að setja camerur á hjól, og þess vegna eru myndirnar virkilega flottar, camerurnar eru aðeins fyrirferðarmeiri en GoPro þannig að ekki lét hjólið sem var með tank-cameru vel að stjórn en myndirnar flottar. í klippunni er líka farið yfir muninn á keppnishjóli og götuhjóli, og þarna koma einnig fram þónokkrar goðsagnir mótorhjólakappaksturs fyrir sjónir, þar á meðal  Wes Cooley, Eddie Lawson & Freddie Spencer. Það er magnað hvað hægt er að láta þessa þungu járnhlunka hlíða góðum ökumönnum.
Fyrir þá sem ekki eru nógu sleipir í enskunni þá er klippan textuð.

15.02.2015 19:03

Fínn pistill frá Óla orginal


Eitthvað er 123 kerfið að stríða okkur því ekki er hægt að setja inn myndir í augnablikinu, þær koma þá aðeins seinna, enn þetta er flott grein. Margt í boði í custom deildinni, þó svo margir orginalar séu ekki mikið hrifnir af þeirri deild, reyndar eru margir custom karlar hneykslaðir  á þeim sem vilja hafa hjólin sín orginal, en mitt mat er að bæði getur verið virkilega flott.


Custom mótorhjól

Það hefur orðið sprenging í sérsmíðuðum mótorhjólum undanfarin ár og þá aðallega eftir að þessir svokölluðu Chopperar hættu að vera vinsælir og þá aðallega útaf því að mjög mikið af þeirri smíði var ekki til að hjóla á, nema fyrir örfáar hetjur sem voru með sjálfspíningarþörf=no pain no gain, ja sko "lúkkið" var miklu meira atriði heldur en hvort gott væri að aka hjólinu, já já það er virkilega gott að aka hardtail með 280 afturdekki og auðvitað með sjálfsmorðs skiptingu (kúplað með fótum og skipt um gír með höndum) !!!

Reyndar hafa mótorhjóleigendur verið að breyta hjólum sínum í mjög margra tugi ára, t.d. í USA eftir seinna stríð, þegar Indian og Harley hjól voru strípuð til að létta þau og menn gerðu þau að sínu, svo Cafe racer hjólin í Englandi mest frá um 1950-1960 og lengur.

En undanfarin ár hafa komið á götuna í mjög mörgum löndum alls konar hjól t.d. street trackerar, cafe racerar, brat, street fighters o.fl. o.fl. Mörg fyrirtæki hafa sprottið upp í Englandi, Danmörku, Þýskalandi og USA. Þessi fyrirtæki eru t.d. Wrenchmonkees í Danmörku, Kaffeemaschine i Þýskalandi, Deus Ex Machina, Rocket Supreme, Revival Cycles, Falcon motorcycles og meira segja sjálfur Roland Sands (aðallega í Harley) hefur smíðað flottan cafe racer byggðan á BMW boxer hjóli sem BMW þróaði yfir í RnineT er segja má svo, já og mjög mörg önnur.

Aðall þessara nýju smíðameistara að þá sé ekki bara gaman að horfa á hjólið, nei það er alls ekki nóg, það verður líka vera gaman að aka því, einnig að það veki eftirtekt og sé þar með mjög sérstakt útlit. Flest þessara fyrirtækja hugsa um hvert smáatriði, allt falli saman í eina rétta heildarmynd. Mjög margar frægar persónur í þessum heimi hafa pantað sér hjól frá þessum smíðaaðilum og þar með gert þá fræga og um leið hefur verðið rokið upp í: rugl.

Í raun eru mikið af þessum nýju custom hjólum hrein listaverk og eins og áður sagt verðið eftir því. Nýleg hjól eru vinsæl í þessara breytingar t.d. Triumph Bonneville, Kawasaki W650, Harley Sporster og svo þau gömlu eins og BMW "air head" sem og t.d. Honda CB500-750 og jafnvel Kawasaki Z1 900 og 1000, en það hjól á auðvitað að fá að vera óbreytt !!! Það má breyta öllu er það ekki ?? Nú fara "orginalarnir" að roðna í framan og tala eflaust um guðlast !!!

Hægt er að panta hjól eftir eigin hugmyndum og smekk frá flestum þessara aðila, en biðin gæti orðið löng og dýr, sem og að þínar hugmyndir falla ekki alltaf að þeirra hugmyndum og þá sérstaklega þeirra sem orðnir eru frægir, því þetta eru orðnir frægir listamenn á sínu sviði, eða að áliti blaðamanna !! Verðið ja það hefur heyrst að þú eigandinn komir með þitt hjól og þessi smíði muni hugsanlega kosta þig a.m.k. 10þús evrur og sumt miklu meira. En eftirspurn er meiri heldur en framleiðsla svo verðið hækkar bara hjá þessum bestu.

 

En því ekki að gera þetta bara sjálfur ?? Jú þeir sem hafa gert það vita að þetta kostar mikinn pening ef þú ætlar að gera þetta vel. Ódýr mótorhjól sem henta í svona, reyndar hægt að breyta nær öllu, en er til virkilega ódýrt mótorhjól til að kaupa í breytingar hér á landi ? þ.e.a.s hjól sem gaman er að hjóla á, ekki bara horfa á. Við erum stödd á lítilli eyju langt norður í höfum og hér eru engir hjólakirkjugarðar eða partasölur fyrir hjólahluti. En látum ekki hugfallast því það má bara ýta á takkann á Ebay og þú hefur eignast hjól eða hlut í hjól og málið er leyst ekki satt og eftir að hafa ýtt á takkann á Ebay þá gætir þú jafnvel fengið fallegan bol í gjöf frá eiginkonunni merktan EBAY fyrir framtakssemi þína.

Stolið úr eigin haus og af netinu.

Óli bruni


13.02.2015 14:23

Ekki heilalaus tjúbari

Kíkið á þessa klippu.

03.02.2015 21:02

FJR Yahamaha


Yamaha FJR 1300ES árgerð 2015

 

Ekki er hægt að byrja fjalla um mótorhjól á nýju ári nema byrjað sé á næstbesta mótorhjóli heimsins þ.e.a.s. Yamaha FJR 1300ES, en vonandi fljótlega verður fjallað um langbesta mótorhjól heimsins Suzuki Bandit 1250 sem hefur verið verulega uppfært fyrir árið 2015 (ekki veitti af !!). Þetta álit um bestu hjól heimsins er samkvæmt könnun sem gerð var í frægum mótorhjólaklúbb sem kenndur er við Hafnafjörð, könnun þessi var framkvæmd samkvæmt sovéskri fyrirmynd !! En að öllu bulli slepptu !! þá snúum við okkur að þessu þekkta ferðahjóli og áður en lengra er haldið þá ætla ég á nýju ári að reyna stytta mínar greinar því heyrst hefur að engin nenni að lesa nema hámarkið svona ca. eina A4 síðu !! Því alltaf má bæta við þekkingu sýna með því að skoða meira um öll hjól á netinu.

                                                                

Nýja FJR-ið er alvöru nútíma supersport ferðagræja sem hönnuð er með löng ferðalög í huga, með miklum þægindum fyrir bæði ökumann og farþega og hægt að taka með fullt af farangri, mikið er af tæknibúnaði til að létta ökumanni allar aðgerðir sem og að auka öryggi og þægindi.

Vélin er 1298 cc, vatnskæld fjögurra strokka línumótor, með tveimur yfirliggjandi knastásum, er sextán ventla, gírkassi er fimm gíra (af hverju ekki sex??), blautkúplingu, er með beinni innspýtingu tölvustýrðri að sjálfsögðu. Bensíntankur er 6.6 gallon um 25 -26 lítra. Fjöðrun er tölvustýrð, hjólið kemur með "krúsi" en takki fyrir krúsið er vinstra megin á stýri, ABS bremsur eru standard, en fram og afturbremsa eru samtengdar, einnig með hituðum handföngum, framrúða er rafstýrð til að hækka og lækka að vild, afl til afturhjóls er tölvustýrt einnig, þannig að engin ætti að spóla sig á hausinn, ökumaður getur ákveðið þetta átak að eigin vali, en tölvubúnaður hjálpar einnig til, hann er kallaður YCC-T. Mælaborð sýnir þér nær allt sem þurfa þykir eftir margra ára reynslu við framleiðslu þessa hjóls. Handföng fyrir bremsu og kúplingu eru stillanleg. Hægt er að stilla sætishæð fyrir ökumann, sem og stýri. Allur þessi búnaður gerir hjólið að frábæru ferðahjóli. Hámarkshraði er rúmlega tvöhundruð, sem ætti að duga miðað við 90 km hámarkshraða hér á landi.

Pústkerfi er fjórir í tvo og að sjálfsögðu með öllu hugsanlegu mengunardóti og skynjurum til að tryggja rétta blöndu og þar með eyðslu. Hjólið kemur með tveimur hörðum hliðartöskum, en einnig er hægt að bæta við topptösku sem kemur að góðum notum og þá sérstaklega að þægindi farþega aukast við að getað hallað sér að topptöskunni, sem og að sjálfsögðu meira af farangri, þannig að makinn getur tekið með sér straujárn og fullt af aukaskóm !! Það er handfang á hlið hjólsins sem léttir átök við að koma hjólinu á miðjustandara. Framljós eru tvö og eru þau LED og hægt að stilla hæð þeirra miðað við hleðslu hjólsins.

Einnig eru a.m.k. framstefnuljós einnig LED. Ágætis geymsla er einnig undir sæti og þar eru einnig verkfæri. Þetta hjól er eins og sagan segir okkur frábært ferðahjól og hefur verið það í mjög mörg ár. Sjá einnig meðfylgjandi tækniupplýsingar.

Stolið og stílfært af netinu

Óli bruni


  • 1
Flettingar í dag: 3993
Gestir í dag: 34
Flettingar í gær: 16114
Gestir í gær: 130
Samtals flettingar: 1291443
Samtals gestir: 80599
Tölur uppfærðar: 10.10.2024 10:10:20