M.C. Drullusokkar Stofnað 04.05.06.

Hvetjum félagsmenn til að senda inn myndir af sér og hjólunum sínum í félagaskrána.
Einnig ef þið eruð með skemmtilegar hjólamyndir, fréttir eða aðrar tilkynningar sem eiga heima hér.
[email protected]

03.05.2015 15:00

Hringurinn part 7

 Ferðasagan 1976 part 7

               Vofan.
Þessi leið með suðurlandinu er fæstra uppáhald. Frá Höfn að Vík í Mýrdal gerist fátt annað en vitlaus veður og hraðamælingar Kirkjubæjarklaustrunga með stöku sandblæstri í bónus.
Lentum þar seint um kvöld og allt löngu lokað. Hímdum undir þakskeggi vegasjoppunnar með vettlingana á vélunum og börðum okkur til hita.  Meðan við spáðum í framhaldið skáll á með svartaþoku, svona rétt til að laga stöðuna.
 Ákváðum að taka óvissuferð eftir veginum til vesturs og vorum rétt lagðir af stað
  þegar Gutti tekur tappan úr og suddinn og þokan breyttist í foss og myrkur svo ekki sást milli augna. Ýkjulaust fór drullan á þjóðvegi 1 í 12-15cm hæð og finna varð skjól eða verða úti. Þrumuveður helvítis var í gangi og við beygðum upp næsta afleggjara. Fyrsta skjól sem fannst var Willis hræ og við inn.



Hér er vofan sjálf lifandi komin og Willisinn góði.

 Þarna sátum við blautir inná pung og pældum í því hvort eldingar myndu kveikja í tréhúsinu á Willisnum, og þá okkur líka eða grilla bílinn complett með okkur um borð. Þetta var enginn venjulegur gauragangur þarna í sveitinni.


 
 Við fórum auðvitað að fikta í tökkum jeppans, eins og menn gera þegar ekkert er betra að hafa og urðum sammála um að ekki gæti verið langt síðan þessum var hent. Það komu enn á hann ljós og fleira. Þar sem við vorum þarna, spilapeningar  náttúrunnar, lyftust skýin um nokkra metra og við blasti hús, 10-15 metra frá bílnum.
 Þetta var greinilega eyðibýli. Ekki verið málað síðan um stríð og ekkert fyrir gluggum. Verulega dimmt. Okkur datt í hug að þarna væri hægt að þurrka sig eitthvað og kannski leggja sig meðan veðrið gengi yfir.
 Við tókum 1.2 og 3 og stukkum úr willis niður kjallaratröppur undir palli sem var inngangur efri hæðar. Kom úr dúrnum að hurðin í kjallarann var læst. Blautir og hraktir var ekki hikað. Þétt spark og við vorum inni. Þar var þurrt og ekkert svo kalt. Næs!
 Tóbakið var rennandi og kveikjarinn logaði ekki svo við vorum órólegir. Ráfuðum um myrkrið í kjallaranum þar til við rákumst á stiga og komum upp um hlera í eldhús gólfi. Þar var  Rafha eldavél með gríðarstórum potti. Engir húsmunir aðrir. Skýin voru fallin aftur og rökkur í eldhúsinu. Þrumur brökuðu og eldingarnar blinduðu eins og rafsuða þegar maður er ekki nógu snöggur a skella hjálminum niður.
 Þar sem við Einar erum að velta fyrir okkur hvort veðrið leyfði framhald, hvort bensín  fengist einhversstaðar eftir viðgerðarhlé, komið miðnætti o.s.frv. Heyrast torkennileg hljóð.



 Í húsinu var hol, þ.e. Miðja hússins var no mans land sem herbergin opnuðust að. Þaðan komu einhverjir smellir og klassískt bíómynda brak þegar hurð opnast. Við frusum í sporunum. Einar kveikti á einhverju.  Öskraði,  byssa! Og hvarf niður kjallarastigann og út í veðrið. Ég sá myrkrið hreyfast og lamaðist þar sem ég stóð. Þetta varð fyrsta og eina skiftið á ævinni sem ég var viss um draugagang. Úr holinu kom beinagrind labbandi með mundaða haglabyssu og ég vissi að dauðinn væri mættur.
 Hver ert þú sem ríður mínum húsum? Sagði grindin. Ég gat engu svarað, lamaður af hræðslu. Þar sem vatnið lak úr mér á eldhúsgólf vofunnar. Þegar hann kom í gættina var tvíhleypan innan við meter frá mér miðjum en í skímunni sást að þetta var maður, ekki draugur. Hann var á áttræðisaldri, á ullarbrók, ber að ofan. Mér létti talsvert og tautaði samhengislítið um okkar hlið málsins sem greinilega var ekki það sem hann vildi heyra. Innbrotsmenn og húsníðingar var hans hlið á málinu.




 Ég baðst afsökunar í bak og fyrir vonandi að byssan hætti að benda á mig. Í þessu kallar Einar sem heyrt hafði mannamál úr skjólinu í kjallaratröppunum, hvort hann megi koma inn. Eruð þið fleiri? Hvað gengur ykkur til að ryðjast inná sofandi fólk? Ég endurtók að veðrið hefði rekið okkur upp afleggjarann hans. Við værum bara tveir. Nauðvörn, enda væri ekki verandi úti í þessum aðstæðum án sérstaks búnaðar.
 Haglabyssan seig meðan karlinn melti þetta. Nú yrðu tærnar af ef gamli snerti gikkinn. Hann gat verið sammála okkur um veðrið. Það var ekki boðlegt til útivistar. Rafmagnið farið af sveitinni og allt í volli. Einar hélt sig til hlés meðan ég reyndi að fá karlinn til að vorkenna okkur smá. Hvort við fengjum ekki skjól í smá tíma til að vinda allavega nærbuxurnar. Ekki við það komandi. Hér væri ekkert að hafa fyrir glæpamenn að sunnan og út með ykkur.
 Seinna þegar ég sagði mömmu Tótu frá þessu vissi hún slatta um karlinn. Árni Johnsen hafði spjallað við hann og sett í bók sem heitir kvistir í lífstrénu eða eitthvað.  Hann var Valgeir Helgason,  einbúi þarna í Ásum síðan 1933 eða þar um bil. Hafði verið röggsamur prestur í áratugi en var á þessum tíma með nokkrar rollur og frægur fyrir að sækja aldrei ellilífeyrinn sinn.
 Willisinn var notaður til kaupstaðarferða á Hornafjörð þegar karlinn vantaði eitthvað. Annars setti hann bara hálft lamb eða svo í pottinn góða, einu sinni í viku og hafði veislu á hverjum degi. Áður en við fórum út í úrhellið hafði birt aðeins til og gegnum holið sást inn í herbergi karlsins. Þar var hermannabeddi og ein hilla. Þótti greinilega yfirdrifið fínt á þessum bæ. Önnur húsgögn voru ekki að sjá.



 Við lögðum af stað, eftir að hafa kíkt í tankana og ákveðið að taka sénsinn á Vík í Mýrdal með spar akstri. Ískaldir og blautir, löngu áður en lagið Þoka með Sniglabandinu varð til.
 Þetta urðu eftirminnilega vondir kílómetrar. Vegurinn var flæðandi drulla, reyndar var engin umferð að trufla okkur, en vosbúðin var algjör. Frá Ásum í Skaftárhreppi á Vík er alveg spotti á malbiki nútímans en þetta var torfæru keyrsla í survival mode alla leið.
 Komum á Vík hálf sjö um morguninn og lömdum gamla Hótelið utan með öllum kröftum þar til einhver vaknaði og hleypti okkur inn. Fengum herbergi uppi á hanabjálka sem við áttum ekki fyrir og vöknuðum eftir hádegi. Þegar maður fór framúr, var stigið í poll sem lekið hafði úr leðrinu meðan við sváfum.



 Eftir símstöð og póstávísun frá Tótu fór að birta til. Gátum borgað hótelið og fyllt á tanka. Leðrið var á ofnum hótelsins og hlýtt meðan við fórum í. Ennþá blautt samt. Náðum til Reykjavíkur um kvöldið, búnir loksins að mastera ónýt dekk og demapara. Vorum nánast löglegir alla leið.

Framhald síðar.

Flettingar í dag: 524
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 372
Gestir í gær: 37
Samtals flettingar: 787536
Samtals gestir: 55898
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 10:17:10